þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Í dag er þriðjudagur...eða réttara sagt er komið þriðjudagskvöld sem bendir réttilega til þess að á morgun sé miðvikudagur og nafnið á þeim degi gefur til kynna að vikan sé hálfnuð, áður en hún byrjaði (allavega að mínu mati).
Helgin fór í það að bitrast yfir flensunni sem ég náði mér í og hélt mér fanginni yfir inni í Glæsibæ nr. 348 mestalla helgina. Hóst hóst, atjúúúú og sniff sniff inn á milli...alltaf vinsælt ásamt smá hitaslæðingi. Sem betur fer var sá óboðni fjandi ekki lengi í heimsókn og er hann núna að taka saman föggur sínar og fara sína leið.
Fór reynar með Valey Söru og hennar manni ásamt Öbbu í Sjallann á föstudagskvöldinu á árshátíð VMA, sem var alveg ágætt að mínu mati. Todmoboile að spila. Hittum Bryndó, Sunnu Björk, Jónínu, Guðrúnu Hildi og einnig Sunnu Birnu og fleiri góðar sálir. Þó voru það einhverjir sem að voru eitthvað óánægðir með hljómsveitina og fannst víst "ööömurlegt", tja...mér fannst bandið gott, en misjafn er smekkur manna.
Annars var lítið brallað. Ég var reyndar drifin í heilsubótargöngu með Hrafnhildi og Ingimari á sunnudeginum sem endaði svo með feitum Subway, skondið.

Annars hef ég verið að velta því fyrir mér hvað sé áhugaverð lesning, þ.e. þegar kemur að bloggi. Sumir skrifa bara um daginn og veginn og hvað þeir gerðu frá því að þeir fóru á fætur og þangað skriðið er upp í rúm, það er reyndar það sem að maður sér mest af (ég er alls ekki að gera lítið úr þeirri "aðferð", var einmitt sjálf að nota hana hér á undan). Aðrir kafa dýpra og skrifa hnitmiðaðar greinar um fyrirfram ákveðið efni. Svo eru til margar gerðir af þessum bloggsíðum sem ég nenni ekki að gera skil á.
Hvað vill maður segja á sínu bloggi? Vill maður bara rifja upp gráann hversdagsleikann fyrir sjálfum sér og öðrum manneskjum sem er alveg sama? Slúðra um atburði helgarinnar? Deila sínum innstu tilfinningum með öðrum (öllum?)? eða hvað?
Hvað vil ég gera með blogg?
Þetta eru of margar spurningar, en ein aðalástæðan fyrir því að mín blogg deyja út fyrir rest er sú að mig skortir tilganginn á því að blogga. Hversdagslífið er bara svo grátt, ómerkilegt og á heildina litið gerist ósköp fátt (sem að er í raun mjög jákvætt). Það er bara einhvernveginn ekki minn "stíll" að segja stuttlega frá því sem ég gerði daginn eða helgina áður, þó að ég hafi gert það. En tja...þetta er orðin óttarleg langloka hjá mér og það er ólíklegt að margir nenni að lesa þetta í gegn.
Kanski ég endi þetta.
Kv. Hildur Ása
Lag líðandi stundar: Joga með Björk Guðmundsdóttur

Engin ummæli: