"Seint koma sumir en koma þó" hefur oft heyrst, og oft verið sagt um hana Hildi Ásu Henrýsdóttur. Hér er hún mætt í enn eitt skiptið til þess reyna að drita niður nokkrum setningum á bloggið sitt.
Langt er síðan ég saltaði bloggið ofan í tunnu og er því komin tími til þess að veiða það upp úr og setjast að snæðingi enda orðið að fyrirtaks bútungi, rautt og rammsalt.
Því er ekki að neita að ýmislegt hefur drifið á mína daga síðan sautjánhundruðogsúrkál (eða síðan seinast). Má þar nefna að komið er sumar sem er að verða hálfnað áður en það byjaði. Það þýðir að þjóðhátíðardagur vor íslendinga er liðinn og MA stúdentar hafa sett upp hvíta kolla og hvatt sinn skóla (ég er í menginu "MA stúdentar" og útskrifaðist með ágætis meðaleinkunn). Nú tvístrast hópurinn í hinar ýmsu áttir. Enn einn endirinn, enn eitt upphafið.
Núna í sumar fluttist ég ekki búferlum í átt að uppeldisstöð minni við Þistilfjörð, heldur skrölti ég aðeins neðar í götuna og deili nú vistarverum með henni Jónínu. Í vetur ákváðum við að gerast sambýliskonur og vinnufélagar (...og seinna keyptum við okkur eins buxur). Við sóttum báðar um á Hótel Eddu og var eigi hafnað og verjum þar öllu okkar vinnuþreki um þessar mundir. Ég ber starfsheitið þvottahúskelling.
Mín áform um að fara í borg óttans næsta vetur urðu ekki að miklu á seinustu stundu. Þess í stað sótti ég um í Myndlistaskóla Akureyrar og fékk þar inn. Þar ætla ég að leggja stund á hnitmiðað 39 eininga heildstætt nám í sjónlistum. Borgin hefur bara ekki heillað mig og það kostar 10.000 kr að draga inn andann þar. Þar sem ég er ekki ein af þeim sem notar fimmara til að skafa undan óæðri endanum eftir stórskák við sjálfan páfann, hvað þá í stórkvóta fjölskildu...þá tel ég nokkuð líklegt að ég myndi kafna úr súrefnisskorti í óttaborginni. Ég sé ekki eftir því að hafa tekið þessa ákvörðun og sé bara fram á býsna skemmtilegan vetur.
Þarna stiklaði ég á stóru og alltaf má bæta við. Til þess að byrja með býst ég ekki við að koma fljótlega með aðra færslu vegna þess að þráðlausa netið hjá okkur Jónínu er sérviturt og vill bara epli en ekki acer. En sjáum hvað til setur.
Núna er ég heima í kyrrðinni á Þórshöfn sem er afskaplega fínt. Ég átti tveggja daga frí og skellti mér austur. Búin að hafa það rólegt og varla gert skapaðan hlut síðan ég kom í gær...hjálpaði mömmu reyndar að færa stofuborðið í dag og skar niður salat. Duglega ég. Á sama tíma gerðu voru foreldrar mínir mjög afkastamiklir. Pabbi var úti að klæða húsið og mamma bakkaði á Polokvikindið mitt og blindaði það öðru megin. Var það gert mjög snyrtilega og ekki sá á öðru.
Auðvitað er frá fleiru að segja en ekki verður allt sagt þar sem tími er kominn til að leggja tölvuna frá sér og skríða undir sæng.
Hilsen fra Thorshofn
Lag líðandi stundar....bara "Bjór, meiri bjór" með Ljótu hálfvitunum...mega
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Hveitibjór, meiri hveitibjór í þínu tilfelli;)
Gaman að heyra frá þér :) Hélt að þú værir dáin.
Hehe...jább aldrei of mikill hveitibjór Drengur minn;)
Jú Kata mín, bloggarinn í mér lést í enn eitt skiptið. En eins og kettirnir þá virðist hann hafa fleiri líf, þó örugglega fleiri en níu í ljósi þess hve oft hann hefur verið úrskurðaður látinn. En núna geri ég enn eina tilraun:)
Skrifa ummæli